Körfubolti

Kawhi Leonard besti varnarmaður NBA annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard.
Kawhi Leonard. Vísir/Getty
Kawhi Leonard, leikmaður San Antonio Spurs, hefur verið valinn besti varnarmaður NBA-deildarinnar í körfubolta en hann fékk þessi eftirsóttu verðlaun einnig í fyrra.  

Kawhi Leonard fékk alls 547 stig og 84 atkvæði í fyrsta sætið en 130 fjölmiðlamenn sem vinna við NBA-deildina fengu að kjósa. ESPN segir frá.

Í öðru sæti varð Draymond Green hjá Golden State Warriors með 421 stig en 44 kusu hann varnarmann ársins.

Hassan Whiteside, miðherji Miami Heat, var síðan þriðji með 83 stig þar af fékk hann tvö atkvæði sem varnarmaður ársins.

Leonard fer fyrir vörn San Antonio Spurs liðsins sem fékk á sig fæst stig að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Liðið fékk á sig þremur stigum færra í leik en næsta lið sem var Utaj Jazz.

Tölfræðin sýndi jafnframt að vörn San Antonio Spurs var mun öflugri þegar Kawhi Leonard var á gólfinu en þegar hann sat á bekknum.

Kawhi Leonard er aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA sem fær þessi verðlaun tvö ár í röð af þeim sem spila ekki inn í teig. Hinn er Sidney Moncrief hjá Milwaukee Bucks sem var valinn 1982-83 og 1983-84.

Þegar Kawhi Leonard var kosinn í fyrra var hann fyrsti maðurinn síðan Ron Artest (2003-04) til að hljóta þessi verðlaun án þess að spila stöðu kraftframherja eða miðherja.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×