Erlent

Aserbaídsjan tilkynnir einhliða vopnahlé

Samúel Karl Ólason skrifar
Aserbaídsjan segir að þyrla þeirra hafi verið skotin niður.
Aserbaídsjan segir að þyrla þeirra hafi verið skotin niður. Vísir/AFP
Yfirvöld í Aserbaídsjan tilkynntu í dag einhliða vopnahlé í Nagorny Karabakh héraðinu þar í landi. Átök blossuðu upp þar í gær og hafa minnst 30 hermenn fallið auk almennra borgara. Hersveitir Armena segja þó að átökin geisi þar enn.

Héraðið hefur verið í höndum aðskilnaðarsinna sem rekja uppruna sinn til Armeníu frá árinu 1994. Stjórn þeirra hefur aldrei verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu en þeir hafa verið studdir af Armeníu. Bæði efnahagslega og hernaðarlega.

Í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjan segir að yfirvöld hafi ákvæðið að hætta átökum. Hins vegar er varað við því að hætti sveitir Armena ekki að ögra Aserbaídsjan verði þeir reknir með valdi úr héraðinu.

Talsmaður aðskilnaðarsinnanna segir AFP fréttaveitunni hins vegar að árásir Aserbaídsjan standi enn yfir. Þungir bardagar geisi nú á víglínunum.

Yfirvöld í bæði Rússlandi og Bandaríkjunum hafa kallað eftir því að bardagar verði stöðvaðir. Báðar fylkingar eru vel vopnaðar og segir á vef BBC að nágrannar ríkjanna hafi lengi óttast að vopnahléið frá 1994 yrði rofið og að ástandið myndi verða óstjórnanlegt.

Í raun hófust átökin á níunda áratuginum og urðu þau að stríði við fall Sovíetríkjanna. Um 30 þúsund manns féllu í átökunum, sem enduðu með vopnahléi árið 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×