San Antonio Spurs setti félagsmet þegar liðið vann sjö stiga sigur, 102-95, á Toronto Raptors á heimavelli.
Þetta var 64. sigur San Antonio í vetur en áður hafði liðið mest unnið 63 leiki á einu tímabili (2005-06). Þetta var jafnframt 48. sigur San Antonio á heimavelli í röð.
Kawhi Leonard skoraði 33 stig fyrir San Antonio, sem er það mesta sem hann hefur gert á ferlinum, og LaMarcus Aldridge skilaði 31 stigi og 15 fráköstum.
Sex leikmenn Toronto skoruðu 10 stig eða meira í leiknum. Norman Powell var þeirra stigahæstur með 17 stig.
Detroit Pistons gerði góða ferð til Chicago og vann fjögurra stiga sigur, 90-94, á heimamönnum.
Reggie Jackson skoraði 22 stig fyrir Detroit sem er í 7. sæti Austurdeildarinnar.
Jimmy Butler var með þrennu (28 stig, 17 fráköst og 12 stoðsendingar) í liði Chicago en það dugði ekki til sigurs. Liðið er í 9. sæti Austurdeildarinnar og þarf góðan endasprett til að komast í úrslitakeppnina.
Þá vann Portland Trail Blazers góðan sigur á Miami Heat, 110-93. CJ McCollum skoraði 24 stig fyrir Portland en Hassan Whiteside var atkvæðamestur hjá Miami með 20 stig og 13 fráköst.
Úrslitin í nótt:
San Antonio 102-95 Toronto
Chicago 90-94 Detroit
Portland 110-93 Miami
Philadelphia 102-115 Indiana
Denver 106-115 Sacramento