Fótbolti

Ósáttur Atletico-maður: Óttast það að Barcelona verði slegið út úr Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filipe Luis í baráttu við Lionel Messi í leiknum í gær.
Filipe Luis í baráttu við Lionel Messi í leiknum í gær. Vísir/Getty
Filipe Luis, varnarmaður Atletico Madrid, er einn af mörgum leikmönnum síns liðs sem gagnrýndu frammistöðu dómarans í 2-1 tapi liðsins á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.

Atletico Madrid komst í 1-0 í leiknum en missti svo framherja sinn og markaskorara, Fernando Torres, af velli með tvö gul spjöld með nokkurra mínútna millibili. Luis Suarez skoraði síðan tvö mörk í seinni hálfleiknum og tryggði Barcelona 2-1 sigur.

Sjá einnig: Suarez hetja Barcelona

Luis Suarez sjálfur var heppinn að sleppa við refsingu áður en hann skoraði þegar hann virtist sparka til Atletico-mannsins Juanfran.

„Ég veit ekki hvað Barcelona-leikmenn þurfa eiginlega að gera til að fá rauða spjaldið eins og við," sagði Brasilíumaðurinn Filipe Luis.

Sjá einnig:Torres reiður: UEFA hefur meiri áhuga á búningamálum en hæfum dómurum

„Við áttum ekki að fá þetta rauða spjald. Það var fullkomlega ósanngjarnt. Það er ekki auðvelt að spila á móti Barcelona. Við vitum að menn vilja ekki að Barcelona detti út úr átta liða úrslitunum. Við erum að spila á móti öllum og öllu," sagði Filipe Luis.

„Við greinum það að það er ótti um að Barcelona verði slegið út úr Meistaradeildinni," sagði Filipe Luis. Seinni leikur liðanna verður á Vicente Calderon, heimavelli Atletico Madrid, á miðvikudaginn kemur.

„Það verður erfitt fyrir okkur í seinni leiknum. Við erum samt enn á lífi og það er því möguleiki," sagði Filipe Luis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×