Hinar fornu byggingar í sýrlensku borginni Palmyra eru ekki jafn mikið skemmdar og óttast var eftir skemmdarverk ISIS. Sýrlenski stjórnarherinn hefur náð tökum á borginni á ný eftir bardaga við liðsmenn ISIS.
Palmyra er að finna um 200 kílómetrum norðaustur af sýrlensku höfuðborginni Damaskus. Borgin stofnuð um tvö þúsund árum fyrir Krist og er á heimsminjaskrá UNESCO. ISIS-liðar höfðu framið skemmdarverk á hinum fornu hofum Palmyru og birtu myndbönd af eyðileggingunni á minjunum sem taldar eru vera ómetanlegar.
Helsti fornleifafræðingur Sýrlands segist hafa fundið fyrir mikilli gleði eftir að rannsókn leiddi í ljós að skemmdirnar eru ekki jafn miklar og talið var í fyrstu.
„Við bjuggumst við hinu versta en heilt yfir lítur þetta vel út,“ sagði Maamoun Abdulkarim sem fór fyrir rannsókninni á minjunum í Palmyra eftir að stjórnarherinn náði yfirráðum yfir borginni á ný.
