Tónlist

Stórkostlegt myndband við lag Jeff Buckley lætur áhorfendur ráða förinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jeff Buckley lést árið 1997.
Jeff Buckley lést árið 1997. Vísir/Getty
Út er komið glænýtt og alveg hreint stórkostlegt myndband við útgáfu hins látna tónlistarmanns Jeff Buckley af lagi Bob Dylan, Just like a Woman. Myndbandið er afar óvenjulegt og fer ótróðnar slóðir í myndbandagerð.

Myndbandið er gagnvirkt og leyfir áhorfendunum að kanna hin mismunandi stig ástarsambands, allt frá hveitibrauðsdögunum til endaloka. Sá sem horfir á myndbandið hefur áhrif á framgang sambandsins með því að velja á milli 73 mismunandi valmöguleika sem hafa áhrif á það hvernig myndbandið spilast.

Tónlistin breytist einnig eftir því hvernig áhorfandinn velur. Í fyrstu heyrum við eingöngu í Buckley við ljúfan gítarundirleik en eftir því hvernig er valið getur tónlistin breyst. Í sumum tilvikum bætist píanó við, í öðrum bætist strengjasveit og í enn öðrum getur kór bæst við.

Framleiðendur myndbandsins segja að um 16 þúsund mismunandi tónlistarsamsetningar séu í boði og því má segja að til séu 16 þúsund mismunandi útgáfur af þessari ábreiðu Jeff Buckley.

Buckley lést á sviplegan hátt árið 1997 er hann drukknaði í Missisippi-ánni. Myndbandið er gefið út í tilefni þess að búið er að gefa út safnplötuna You and I þar sem finna má tíu lög frá fyrstu stúdíoupptöku Buckley fyrir Columbia Records.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×