Fótbolti

MSN-tríóið með 219 af 303 mörkum Barcelona undir stjórn Luis Enrique

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Spænska fótboltaliðið Barcelona virðist ekki getað tapað fótboltaleik, en það þurfti síðast að sætta sig við tap í október á síðasta ári.

Börsungar náðu aftur átta stiga forskoti í spænsku 1. deildinni í gærkvöldi þegar liðið burstaði Rayo Vallecano í Madríd, 5-1. Lionel Messi skoraði þrennu og Ivan Rakitic og Arda Turan sitthvort markið.

Fyrsta mark Messi og annað mark leiksins var mark númer 300 sem Börsungar skora undir stjórn Luis Enrique. Hann tók við liðinu fyrir síðustu leiktíð og vann þrennuna á sínu fyrsta tímabili.

Messi átti eftir að bæta við tveimur mörkum og hefur því skorað 91 mark undir stjórn Luis Enriqe. Í heildina er MSN-tríóið (Messi, Luis Suárez og Neymar) búið að skora 219 af 303 mörkum Barcelona eftir að Luis Enrique tók við.

Undir stjórn Enrique er Barcelona að skora 2,8 mörk í leik og fá á sig aðeins 0,72 mörk. Það er ekki furða að liðið vann þrennuna á síðustu leiktíð og getur hæglega endurtekið þann leik í vor.

Messi er markahæstur Börsunga undir stjórn Enrique með 91 mark en Luis Suárez er búinn að skora 66 síðan hann kom frá Liverpool og Brasilíumaðurinn Neymar 62 mörk.

Næsti maður, króatíski miðjumaðurinn Ivan Rakitic, er fjórði á markalista Katalóníurisans undir stjórn Enrique með fjórtán mörk.

Mörkin úr leiknum í gær má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×