Luis Enrique, þjálfari Barcelona, er mjög spenntur fyrir leik sinna manna gegn Arsenal í Meistaradeildinni í kvöld.
„Á pappírunum er þetta fyrirfram eins spennandi leikur og þeir verða. Hérna eru að mætast tvö lið sem spila flottan fótbolta,“ sagði Enrique.
„Fótboltinn getur alltaf komið á óvart. Ég held að áhorfendur muni sjá frábæran fótboltaleik því bæði lið vilja hafa yfirburði í sínum leikjum.“
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að Barcelona sé miklu sigurstranglegra liðið en Enrique gefur lítið fyrir það.
„Hann má hafa sína skoðun að sjálfsögðu. Við erum auðvitað núverandi meistarar og því eðlilegt að við séum sigurstranglegir fyrir okkar leiki. Það þýðir samt ekkert í þessum leik því við verðum að sanna okkur í hverjum einasta leik. Það er alltaf erfitt að spila á útivelli.“
Barcelona tók alla bikara sem í boði voru á síðustu leiktíð. Félagið ætlar sér sömu hluti á þessari leiktíð.

