Körfubolti

Enn ein þrennan hjá Green í öruggum sigri meistaranna | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
NBA-meistarar Golden State Warriors skoruðu ekki nema 18 stig í fyrsta leikhluta í 116-95 sigri sínum á New York Knicks í Madison Square Garden í nótt. Liðið hefur ekki byrjað jafn illa allt tímabilið.

Steve Kerr, þjálfar Golden State, var ekki skemmt yfir spilamennsku sinna manna eftir fyrsta leikhluta og lét það bitna á teiknispjaldinu sínu. „Hann braut það og henti því svo,“ sagði Draymond Green, miðherji Golden State, eftir leikinn.

Kerr virtist kveikja í sínum mönnum því þeir skoruðu 64 stig í næstu tveimur leikhlutum og á sama tíma skoraði New York ekki nema 65 í fyrstu þremur leikhlutunum. Niðurstaðan var 44. sigur Golden State sem hefur aðeins tapað fjórum leikjum á leiktíðinni.

Draymond Green skoraði 20 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í liði Golden State og náði þar með sinni níundu þrennu á tímabilinu. Hann jafnaði 56 ára gamalt met Tom Gola með þessari frammistöðu.

Klay Thompson átti einnig stórleik og skoraði 34 stig, en Steph Curry, sem spilaði með ljótan skurð á enninu, tók því rólega og skoraði aðeins 13 stig.

Hjá heimamönnum í Knicks var Carmelo Anthony stigahæstur með 24 stig og 10 stoðsendingar en Lettinn ungi, Kristaps Porzingis, skoraði 14 stig og tók 6 fráköst á þeim 20 mínútum sem hann spilaði.

Sterkur bekkur

Los Angeles Clippers gengur allt í haginn þessa dagana án Blake Griffin, en liðið rústaði Chicago Bulls á heimavelli sínum í nótt, 120-93. Í fjarveru Griffins hefur varamannabekkurinn hjá Clippers verið alveg ógnarsterkur.

Í síðustu fjórum leikjum, sem allir hafa verið sigurleikir Clippers, er bekkur liðsins búinn að skora 184 stig á móti 78 stigum mótherjanna.

Jamal Crawford, sem kom einmitt inn af bekknum, var stigahæstur heimamanna með 26 stig, en næstur kom J.J. Redick með 21 stig. DeAndre Jordan var svo hrikalega öflugur undir körfunni og skoraði 17 stig og tók 20 fráköst.

Úrslit næturinnar:

LA Clippers - Chicago Bulls 120-93

Miami Heat - Atlanta Hawks 105-87

Orlando Magic - Boston Celtics 119-114

Dallas Mavericks - Phoenix Suns 91-78

NY Knicks - Golden State Warriors 95-116

Portland Trail Blazers - Minnesota Timberwolves 96-93

LA Lakers - Charlotte Hornets 82-101

Staðan í deildinni.

Tilþrif næturinnar:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×