Hann rær á ný mið í febrúar þegar hann ásamt Sverri Bergmann mun sjá um talsetningu og framleiðslu teiknimyndarinnar Ratchet & Clank en þeir félagar munu einnig leikstýra herlegheitunum.
„Okkur langar að gera handritið dálítið að okkar og setja smá íslenska dægurmálamenningu í það,“ segir hann en til liðs við sig hafa þeir fengið fólk á borð við Ara Eldjárn, Dóra DNA, Andra Frey Viðarsson, Ólaf Darra, Sögu Garðarsdóttur, Pétur Jóhann Sigfússon og Sölku Sól Eyfeld. Því er óhætt að segja að kveða muni við nýjan hljóm í talsetningu myndarinnar.
„Það eru nýjar raddir sem koma þarna inn sem fólk hefur ekki heyrt áður í talsetningarheiminum, í bland við þær gömlu góðu. Mér finnst ótrúlegt að enginn hafi notað Andra Frey sem óvininn áður, hann er með fullkomna rödd sem skúrkur þótt hann sé mjög indæll náungi.“

„Þegar við Svessi sáum myndina var ekki hægt að líta fram hjá því að einn karakterinn er nauðalíkur mér í útliti og fasi. Svessi og Halldór Gunnar Fjallabróðir tóku ekki annað í mál en að ég tæki þennan karakter,“ segir Steindi og hlær. Halldór Gunnar er upptökustjóri talsetningarinnar.
Teiknimyndin er gerð eftir samnefndum tölvuleikjum og verður gerð í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Senu og kemur út í apríl næstkomandi. Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn úr myndinni.