Lífið

Kings of Leon mæta í einkaþotu til Íslands

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Kings of Leon er ein vinsælasta hljómsveitin í heiminum í dag.
Kings of Leon er ein vinsælasta hljómsveitin í heiminum í dag. Mynd/getty
Stórhljómsveitin Kings of Leon spilar í Nýju-Laugardalshöllinni á fimmtudaginn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu tæplega 70 manns koma með henni til landsins til þess að vinna í kringum tónleikana.

Nokkrir Íslendingar verða líka að vinna með hljómsveitinni. Tónleikarnir verða þeir fyrstu á þessum legg tónleikaferðalagsins en hljómsveitarmeðlimir hafa verið í pásu frá tónleikahaldi til þess að eiga tíma með fjölskyldum sínum. Það er aldrei að vita nema fjölskyldurnar ferðist með þeim, en eiginkona Calebs Followill, aðalsöngvarans, er engin önnur en Lily Aldridge ofurfyrirsæta. Hljómsveitameðlimirnir fjórir eru nátengdir, þrír þeirra eru bræður og einn frændi. Þeir hafa spilað saman í 15 ár.

Búist er við að félagarnir komi með einkaflugvél á miðvikudaginn svo að líkur eru á að einhverjir rekist á þá á rölti um Reykjavík. Þeir fara svo af landi brott daginn eftir tónleikana og spila í Búdapest 15. ágúst. Við komuna til landsins krefjast hljómsveitarmeðlimir þess að fá fjóra stóra jeppa með dökkum rúðum til þess að skutla þeim á hótelið.





Það er spennandi að sjá hvort að Lily Aldridge komi með eiginmanni sínum að skoða ÍslandMynd/Getty
Kröfur hljómsveitarinnar um búningsherbergin eru ekki miklar eða óvenjulegar. Herbergin þurfa að vera eins heimilisleg og hægt er með leðursófum, plöntum og ísskápum. Við komu sveitarinnar í búningsherbergin þarf að vera stútfullur ísskápur af bjór, Coca cola, Gatorade, Red bull ásamt guacamole og salsasósu. Þeir biðja einnig um rauðvín, flösku af Absolut vodka, Jameson viskí, margar tegundir af kartöfluflögum, hnetu-M&M, hreinsiklúta og margt fleira. 

Tækjabúnaður sveitarinnar kom til landsins fyrir helgi með Norrænu á Seyðisfjörð. Mörg tonn af búnaði eru nú á leiðinni til Reykjavíkur í rólegheitunum í þremur vörubílum, en bílstjórarnir skoða sig um á leiðinni og sofa í bílunum. Þegar þeir koma í bæinn verður bílunum lagt fyrir utan Laugardalshöllina og í þeim sofa bílstjórarnir. Tækin munu síðan fara með flugi til Ungverjalands en bílstjórarnir keyra aftur til Seyðisfjarðar með bílana. 

Eins og margar stjörnur sem koma hingað til lands munu hljómsveitarmeðlimirnir gista á Hilton hótelinu. Talið er að ástæðan fyrir því að Hilton hótelið er vinsælt hjá fræga fólkinu sé góð staðsetning, auðvelt að komast að því og frá, stór og rúmgóð móttaka og svíturnar þar eru með þeim flottustu sem finnast á landinu. 

Tónleikar Kings of Leon verða á fimmtudaginn og það eru enn til örfáir miðar á tix.is. Þetta verður ein stærsta tónlistarveislan í ár en sveitin er ein sú frægasta í heiminum í dag. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×