Rannveig Tryggvadóttir er í óða önn að hengja upp myndir sínar í Anarkíu listasal í Kópavogi, með hjálp vinkonu sinnar, þegar haft er samband við hana. Hún ætlar að opna sýningu þar á morgun, laugardag klukkan 15-18.
Litirnir vega salt er titill sýningarinnar og verkin eru stór og litrík. Hún segir þau nær öll unnin á þessu ári, flest með olíu á striga.
„Allar mínar myndir eru borgar- eða landslagsmyndir, en þó abstrakt,“ segir hún. „Ég sé mynstur alls staðar þegar ég er á ferðalögum og horfi mikið á hvernig skuggar falla og birtan endurvarpast.“
Rannveig stundaði nám við Högskolan för design och konsthantverk í Gautaborg og útskrifaðist með MFA-próf árið 1988. Hún lét til sín taka í leirlist og rak eigin keramikvinnustofu á árunum 1999 til 2013. Nú kveðst hún hafa lagt leirlistina á hilluna og snúið sér alfarið að málverkinu.
Litirnir vega salt er önnur tveggja sýninga sem verða opnaðar í Anarkíu klukkan 15 á morgun, laugardag, því í neðri salnum er sýningin Höfuðverk með tólf hauskúpum af hrútum sem jafnmargir myndlistarmenn hafa sett mark sitt á – og þar er ekki átt við fjármörk.
Báðar sýningarnar verða opnar alla daga nema mánudaga fram til 16. ágúst og tekið skal fram að ekið er að Anarkíu frá Skeljabrekku.
