Breski söngvarinn Sam Smith ætlar að sniðganga Rússland algjörlega í næstu tónleikaferð sinni. Ástæðan er staða samkyn-og tvíkynhneigðra og transfólks í landinu. Smith, sem er samkynhneigður, sagði í viðtali við The Sun að þó hann ætti aðdáendur í Rússlandi gæti hann ekki hugsað sér að fara þangað.
„Maður hefði haldið að ástandið væri betra til dæmis í Bandaríkjunum, en það er ekki gott þar, bæði hvað varðar réttindi samkynhneigðra og líka rasisma. Þannig að ég get rétt ímyndað mér hvernig þetta er í öðrum löndum eins og Rússlandi,“ segir Smith.