Lífið

Línudansdrottningin hans Emmsjé Gauta

Guðrún Ansnes skrifar
Þau Gauti og Ingunn eiga línudansinn sameiginlegan, það er, meðan hún dansar eftir kúnstarinnar reglum þá stígur Gauti hann í daglegu lífi og eftir eigin höfði.
Þau Gauti og Ingunn eiga línudansinn sameiginlegan, það er, meðan hún dansar eftir kúnstarinnar reglum þá stígur Gauti hann í daglegu lífi og eftir eigin höfði. Vísir/Vilhelm
Maður lætur hafa sig út í allt mögulegt, og þetta ætlar að gera heilmikla lukku,“ segir Ingunn Hlín Björgvinsdóttir, dansstjarna sem slegið hefur rækilega í gegn í nýjasta myndbandi Emmsjé Gauta, sem ber nafnið Ómar Ragnarsson. „En þetta var nú bara allt í lagi, þeir hringdu og ég gerði þetta,“útskýrir hún.

Dansar Ingunn línudans af miklum móð í myndbandinu en viðurkennir þó fúslega að hafa ekki haft hugmynd um hvernig hún hafi ætlað að dansa í tjéðu myndbandi. „Ég dansaði bara það sem mér datt í hug, heyrði taktinn og þá kom þetta allt saman til mín,“ útskýrir Ingunn og bætir glottandi við: „Þetta fer allt eftir músíkinni, maður dansar nú alveg hraðar þetta.“

Ingunn er svo sem enginn aukvisi þegar kemur að því að sýna dans í myndböndum. „Ég hef nú dansað með Geirmundi Valtýssyni í sjónvarpinu einu sinni, nema þá vorum við reyndar fjórar. Svo hef ég dansað með Helga Björns líka.“

Sjálf hefur Ingunn ekki verið mikið í að dansa við rapptónlist,og sagðist ekkert hafa þekkt þennan Emmsjé Gauta þegar verkefnið datt inn á borð til hennar. „Ég þekki hann ekki nokkurn skapaðan hlut. Þeir hringdu á stöðvarnar og var bara endalaust bent á mig,“ útskýrir Ingunn og bætir við: „Svona lætur áttatíu og fjögurra ára kerlingin,“ og hlær eins og hún eigi lífið að leysa.

Ingunn hefur dansað síðan hún var ung, og fór mikinn í samkvæmisdönsum. „ Ég dansaði alltaf við bróður minn, en svo hætti hann. Þá fór ég beint á línuna, þar þarf engan herra,“ segir hún, alsæl með sitt sport en hún hefur dansað línudans í um tuttugu ár núna, og kennir hann að auki. Eins og það sé ekki nóg segir Ingunn frá því að dansinn umlyki hana úr öllum áttum, en á dögunum hafi sjö ára barnabarn hennar orðið Íslandsmeistari í gömlu dönsunum og árið 2003 hafi dóttir hennar orðið heimsmeistari í samkvæmisdönsum, svo sennilega sé þetta allt saman í blóðinu.

Aðspurð um hvort hún ætli sér að hasla sér frekari völl innan rappsenunnar svara okkar kona því til að hún viti ekkert um það, en það megi vissulega skoða allt. 

Kláraði þetta á fjörutíu mínútum

„Ingunn er svona undrakona, þetta tók okkur í mesta lagi fjörutíu mínútur, eða tvö rennsli, sem er frekar óvenjulegt,“ segir Gauti Þeyr, eða Emmsjé Gauti. „Hugmyndin er komin frá Frey Árnasyni og mér leist auðvitað vel á þetta bara.“

Gauti er að vonum himinlifandi með myndbandið, sem sker sig sannarlega úr dobíu rappmyndbanda, þar sem býsna sjaldgæft er að konum á níræðisaldri sé gert hátt undir höfði, en á aðeins tveimur sólarhringum hlaut myndbandið tólf þúsund spilanir.

„Ég væri helst til í að fá hana bara með mér að túra,“ svarar Gauti þegar hann er inntur eftir því hvort hann ætli sér að fá Ingunni í fleiri verkefni, en augljós tenging er á milli línudansins og rappsins fyrir þá sem nú þegar hafa ekki komið auga á hana. „Ég hef alltaf dansað mikið á línunni, svo ég tengi þannig mikið við línudansinn,“ útskýrir hann að lokum og skellir upp úr.


Tengdar fréttir

Nýtt myndband frá Emmsjé Gauta um bullandi vináttu

„Strákarnir er eitt af þessum lögum sem kom um leið og ég heyrði taktinn. Auðunn Lútherson sendi á mig demo af honum og ég varð samstundis ástfanginn,“ segir rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×