Eygló Ósk Gústafsdóttir varð í dag fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á stórmóti í sundi er hún varð þriðja í 100 m baksundi á nýju og glæsilegu Íslandsmeti, 57,42 sekúndum.
Þetta er magnað afrek hjá Eygló sem bætti tveggja vikna Íslandsmet sitt í undanrásunum í gær en þá synti hún á 58,39 sekúndum. Hún bætti sig því um tæpa sekúndu á einum degi sem út af fyrir sig er ótrúlegt afrek.
Sjá einnig: Eygló Ósk vann brons á Evrópumótinu
Eygló og Hrafnhildur Lúhersdóttir afrekuðu báðar í sumar að verða fyrstu íslensku konurnar sem synda til úrslita á HM í 50 m laug en báðar hafa bætt sig mikið á þessu ári. Hrafnhildur er ekki á meðal keppenda á EM í Ísrael þar sem hún er við æfingar í Bandaríkjunum.
Árangurinn í dag gefur góð fyrirheit fyrir 200 m baksundið sem er sterkasta grein Eyglóar. Hún fær reyndar lítinn tíma til að jafna sig því keppni í greininni hefst í fyrramálið og átta bestu keppendurnir úr undanrásunum fara beint í úrslitin.
Eygló keppir í fyrsta undanriðli af þremur sem hefst klukkan 07.52.
