Óljóst var hve margir létust í átökum við gíslatökumennina, en talið að það gætu hafa verið allt upp í nokkrir tugir. Ekki var vitað hve margir hinna látnu væru úr röðum gíslanna.
Fréttastofan Reuters hafði eftir friðargæslumanni frá Sameinuðu þjóðunum að hann hafi séð 27 lík samtals á tveimur hæðum hótelsins, en væri ekki búinn að leita víðar.
Fjöldi manns til viðbótar lá í sárum eftir átökin og þurfti að flytja marga á sjúkrahús.
Hópur vopnaðra manna hafði ráðist inn á hótelið og tekið þar 170 manns í gíslingu. Vitni segir að mennirnir hafi verið um tíu talsins. Þeir hafi ekið upp að hótelinu á bifreiðum með númeraplötur frá sendiráðum og byrjað á að skjóta öryggisverði utan við hótelið.

Hótelið er partur af hótelkeðjunni Radisson Blu og vinsælt meðal útlendinga í höfuðborginni.