Fótbolti

Nýir búningar hjá PSG til minningar um fórnarlömbin í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða PSG

Franska stórliðið Paris Saint Germain ætlar að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna í París með sérstökum hætti þegar liðið spilar í Meistaradeildinni í þessari viku.

Zlatan Ibrahimovic er að koma heim í þessari umferð því Paris Saint Germain mætir þá sænska liðinu Malmö í fimmtu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fer leikurinn fram í heimaborg Zlatans, Malmö.

Leikmenn Paris Saint Germain munu spila í nýjum búningum sem voru hannaðir sérstaklega fyrir næstu tvo leiki, Meistaradeildarleikinn á móti Malmö annarsvegar og svo leikinn á móti Troyes í frönsku deildinni á laugardaginn.

Paris Saint Germain fékk leyfi frá aðalstyrktaraðila sínum til að skipta út Emirates-auglýsingunni í þessum tveimur leikjum.

Í stað Emirates-auglýsingarinnar mun vera áletrunin „Je Suis Paris" eða „Ég er París" vera áberandi framan á búningum PSG-liðsins.  Það er fjallað um þetta framtak á heimasíðu franska liðsins.

Leikurinn á móti Troyes verður fyrsti heimaleikur Paris Saint Germain síðan að voðaverkin voru framin föstudaginn 13. nóvember.

Íslenski landsliðsmaðurinn Kári Árnason missir af leiknum á móti Paris Saint Germain þar sem hann fékk rautt spjald í síðasta Meistaradeildarleik Malmö og tekur Kári því út leikbann annað kvöld.

Paris Saint Germain er í 2. sæti riðilsins, þremur stigum á eftir toppliði Real Madrid en fjórum stigum á undan Shakhtar Donetsk og Malmö FF sem eru í 3. og 4. sæti með þrjú stig. Parísar-liðið tryggir sér því sæti í sextán liða úrslitunum með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×