Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir að Rússar séu reiðubúnir til þess að starfa nánar með Bandaríkjunum og bandamönnum í baráttunni gegn Isis. Pútín og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu í Moskvu fyrr í kvöld.
Forsetarnir sammældust um að samhæfa loftárásir sínar í Sýrlandi svo að komist yrði hjá því að loftárásir beindust að hópum gegn ISIS en því hefur verið haldið fram að loftárásir Rússa í Sýrlandi beinist ekki eingöngu að ISIS.
Forsetarnir sammældust um að heryfirvöld og leyniþjónustur ríkjanna myndi samhæfa aðgerðir sínar í Sýrlandi og skiptast á mikilvægum upplýsingum.
Í yfirlýsingu sem Hollande gaf frá sér eftir fundinn lagði hann áherslu á að Bashar al-Assad forseti Sýrlands yrði að víkja en um þetta voru Pútín og Hollande ekki sammála. Rússlandforseti hefur alla tíð haldið því fram að Assad sé mikilvægur hluti af framtíð Sýrlands.
Sagði hann að íbúar Sýrlands þyrftu að eiga lokaorðið varðandi framtíð Assad og að sýrlenski herinn væri mikilvægur bandamaður í baráttunni gegn ISIS.
Þrátt fyrir að lýsa yfir auknum samstarfsvilja við Bandaríkin gagnrýndi Pútín Bandaríkjamenn fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu á þriðjudaginn enda væru Tyrkir bandamenn Bandaríkjanna.
