Fótbolti

Ronaldo klár í ísbað um miðja nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Getty og EPA
Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid, fer fögrum orðum um fagmennsku Portúgalans en það má sjá á því að það er líklega enginn tilviljun að Ronaldo hafi verið einn allra besti leikmaður heims síðustu árin.

Cristiano Ronaldo spilaði fyrir Carlo Ancelotti í tvö ár hjá Real Madrid og þeir unnu Meistaradeildina saman vorið 2014.

Ancelotti hefur verið þjálfari hjá AC Milan, Juventus, Chelsea og Paris St-Germain. Hann ætti því að hafa unnið með mörgum heimsklassaleikmönnum.

Ancelotti er ekki í vafa um það að Cristiano Ronaldo standi öllum leikmönnum framar þegar kemur að fagmannensku.

„Enginn vafi. Hann er fremstur allra. Ég horfði á heimildamyndina hans. Hún var góð en hún sýndi samt ekki hversu mikill fagmaður hann er," sagði Cristiano Ronaldo í samtali við Daily Mail.

„Stundum vorum við að koma heim úr Evrópuleik og klukkan var orðin þrjú um nóttu. Ronaldo var eini leikmaðurinn sem fór ekki strax heim heldur valdi það frekar að fara í ísbað til að hraða endurheimtinni eftir leikinn," sagði Ancelotti.

Cristiano Ronaldo hefur verið kosinn besti knattspyrnumaður heims undanfarin tvö ár. Hann hefur þegar skorað 326 mörk í 315 leikjum með Real Madrid í öllum keppnum

Carlo Ancelotti er enn atvinnulaus eftir að hafa verið látinn fara frá Real Madrid eftir síðasta tímabil. Hann hafði ekki áhuga á því að taka við liði Liverpool sem réði frekar Jürgen Klopp. Ancelotti er alltaf í umræðunni þegar starf losnar hjá einhverju af stóru liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×