Íslenska liðið tapaði fyrir Póllandi, 4-2, á föstudagskvöldið, en öll þessi þrjú lið verða í eldlínunni á EM í Frakklandi næsta sumar.
Arnór Ingvi Traustason spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Póllandi og leikmenn á borð við Hólmar Örn Eyjólfsson og Rúnar Má Sigurjónsson fengu einnig tækifæri.
„Við notuðum leikinn í Póllandi til að prófa leikmenn og ætlum að gera það aftur núna,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, á blaðamannafundi í morgun.
Slóvakar verða án nokkurra sinna sterkustu manna annað kvöld. Martin Skrtel, miðvörður Liverpool, Marek Hamsik, miðjumaður Napoli, og Juraj Kucka, miðjumaður AC Milan, fá allir frí.
„Við vildum spila við sterkasta slóvakíska liðið því það er mjög gott. Það er samt alveg skiljanlegt að þjálfari Slóvaka hvíli menn. Hann vill, eins og við, vafalítið stækka hópinn fyrir EM og gefa því fleiri leikmönnum tækifæri,“ sagði Heimir Hallgrímsson.
Leikurinn fer fram á heimavelli MSK Zilina klukkan 19.45 annað kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.
