„Ég var fyrst í landslagsmálun, fór svo yfir í abstrakt en sótti í landslagið aftur,“ sagði hann á níræðisafmælinu í ágúst.
Sýningin Á eintali við tilveruna sem opnuð er í dag klukkan 15 er samsett úr myndum Eiríks frá tímabilinu 1983 til 2008 og er lokasýningin í fimm sýninga röð. Ólöf Sigurðardóttir sýningarstjóri segir þá röð hafa verið vissan kjarna í starfsemi Hafnarborgar frá árinu 2010, en hún stýrði þeirri menningarstofnun þar til í maí á þessu ári er hún gerðist safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

„Þetta er 200 síðna bók og henni er skipt upp í kafla eftir sýningunum fimm og myndefnið tengist þeim eins og þeim var raðað upp. Textar um hvert tímabil fyrir sig eru eftir mig og einnig er grein eftir Aðalstein Ingólfsson listfræðing.
Síðan er æviágrip Eiríks sem starfaði að list sinni allan seinni hluta 20. aldar og fram á þá 21. Æviágripið er unnið af tveimur ungum listfræðingum, Aldísi Arnardóttur og Heiðari Kára Rannverssyni, og er jafnframt skemmtilegt innlit í íslenska listasögu því auk þess að lýsa ævi Eiríks kemur fram hverjir voru með honum í skóla, með hverjum hann var að sýna og svo framvegis.“
Á morgun, sunnudag, klukkan 15 verður boðið upp á sýningarstjóraspjall í Hafnarborg í tengslum við sýninguna.