„Ég get ekkert tjáð mig um eitt eða neitt varðandi störf mín hjá UEFA,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Vísi aðspurður um skýrslu hans eftir leik Manchester City og Sevilla í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.
Geir var eftirlitsmaður UEFA á leiknum og er sagður hafa klagað stuðningsmenn Manchester City fyrir að baula á meðan Meistaradeildarlagið var spilað fyrir leikinn.
Sjá einnig:Segir Geir gera atlögu að tjáningarfrelsinu
Manchester City á yfir höfði sér sekt vegna þess, en Martin Samuel, blaðamaður á Daily Dail, lætur Geir og UEFA heyra það í pistli sínum vegna þessarar kvörtunar.
„Það gilda lög og reglur í knattspyrnunni. Reglur UEFA eru mjög stífar,“ segir Geir sem vildi annars lítið tjá sig um málið.
Aðspurður hvað honum finnst um ásakanir enska blaðamannsins um að hann sé að gera atlögu að tjáningar- og málfrelsi stuðningsmanna segir geir:
„Það eru lög og reglur í boltanum. Ef brotið er á manni innan teigs þarf dómarinn að dæma víti. Þannig eru lögin. Hann má ekki færa það fyrir utan teig. Menn verða að fara eftir reglum,“ segir Geir Þorsteinsson.
