Gríska liðið komst í þrígang yfir í leiknum en leikmönnum Arsenal tókst að svara með mörkum frá Theo Walcott og Alexis Sanchez.
Alfreð Finnbogason byrjaði á varamannabekk Olympiakos í leiknum en hann kom inná í hálfleik og átti heldur betur eftir að láta til sín taka.
Stuttu eftir jöfnunarmark Sanchez kom Alfreð Olympiakos aftur yfir af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Felipe Pardo en afgreiðslan var til fyrirmyndar.
Skytturnar lögðu allt í sóknarleikinn á síðustu mínútum leiksins en þeim tókst ekki að jafna metin og lauk leiknum því með 3-2 sigri gríska félagsins.