Sport

Skeiðsnillingar klikka ekki

Telma Tómasson skrifar
Skeiðsnillingurinn Sigurbjörn Bárðarson og Flosi frá Keldudal.
Skeiðsnillingurinn Sigurbjörn Bárðarson og Flosi frá Keldudal. mynd/ásgeir marteinsson
Skeiðsnillingarnir Sigurbjörn Bárðarson og Sigurður Vignir Matthíasson sýndu að venju snilldartakta í fyrstu keppni Meistaradeildar í hestaíþróttum sem fram fór á Selfossi í blíðskaparveðri í dag. Keppt var í gæðingaskeiði og 150 metra skeiði.

Sigurbjörn vann gæðingaskeiðið á Flosa frá Keldudal með 8,17 í einkunn, en Sigurður sigraði 150m skeiðið á Létti frá Eiríksstöðum á tímanum 14,34. Sigurður og Léttir eru í hörkustuði, en þeir eiga einnig besta tíma ársins í þessari grein.

Lið Heimahaga hlaut liðaskjöldinn í 150m skeiðinu og liðaskjöldurinn í gæðingaskeiðinu kom í hlut liðs Ganghesta/Margrétarhofs.

Jafnan hefur verið keppt í skeiðgreinum MD í hestaíþróttum þegar dregur nær vori, en þá er veðrið jafnan að trufla og vallaraðstæður fráleitt hestvænar. Í september eru skeiðhestarnir hins vegar í góðu þjálfunarformi og vallaraðstæður hinar bestu og var því tekið á það ráð að halda keppnina nú. Skeiðfélagið sá um framkvæmd mótsins og var mjög vel að því staðið.

Sýnt verður frá keppninni í íþróttafréttum Stöðvar 2 á sunnudagskvöld og keppnin í heild verður sýnd á Stöð 2 sport þegar Meistaradeildin fer á fullt skrið í janúar. Beinar útsendingar verða frá öllum öðrum keppnisgreinum Meistaradeildarinnar á Stöð 2 sport í vetur.

Allar niðurstöður skeiðsins má lesa á vef Meistaradeildarinnar meistaradeild.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×