Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 9. maí árið 2014 að setja á laggirnar landshlutanefnd til þess að koma með tillögur sem miðuðu að því að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu frá Húnaflóa í vestri til Skagafjarðar í austri. Nefndin var undir forystu forsætisráðuneytis. Nefndin skilaði tillögunum 25 fyrir 1. nóvember í fyrra.
Ein tillaga nefndarinnar hljóðaði upp á að ný starfsstöð utanríkisráðuneytisins yrði flutt á Hvammstanga og að minnsta kosti þrjú störf flutt frá Reykjavík af því tilefni. Í fjárlagafrumvarpinu er leitað eftir 26 milljóna króna framlagi í því skyni að opna starfsstöð á landsbyggðinni til að sinna skjalavörslu fyrir sendiskrifstofur. Þó ekki sé þess getið hvar þessi nýja starfsstöð verði sett á laggirnar er talað um að þetta rími við tillögur landshlutanefndarinnar.

Fréttablaðið óskaði eftir viðbrögðum forsætisráðuneytisins við því hvers vegna svo fáar tillögur frá nefndinni væru komnar fram. Í svari ráðuneytisins kemur fram að tillögurnar hafi verið til skoðunar í fagráðuneytum og áætlað er að ráðuneytin ljúki umfjöllun sinni á næstu vikum. Í framhaldi af því er svo gert ráð fyrir að málið komi að nýju til umfjöllunar í ríkisstjórn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar eftir því var leitað.