Ísland bar sigurorð af Slóvakíu, 4-1, í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í gær.
Leikurinn var liður í undirbúningi fyrir fyrsta leikinn í undankeppni EM 2017, gegn Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.
Íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum í gær þótt Slóvakar hefðu átt sína spretti.
Sandra María Jessen kom Íslandi yfir strax á 4. mínútu eftir undirbúning Fanndísar Friðriksdóttur.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik en sá seinni var aðeins tæplega mínútu gamall þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði annað mark Íslands.
Jana Vojteková minnkaði muninn á 54. mínútu en aðeins þremur mínútum síðar jók Margrét Lára Viðarsdóttir muninn í 3-1 með marki úr vítaspyrnu. Þetta var 72. mark Margrétar í 99. landsleiknum.
Það var svo Hólmfríður sem gulltryggði sigur íslensku stelpnanna með afar skrautlegu marki á 75. mínútu.
Það mark, sem og hin fjögur úr leiknum, má sjá á heimasíðu SportTV, eða með því að smella hér.
