Fótbolti

Ari Freyr: Gott að menn geti hlegið að krömpunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ari Freyr Skúlason verður að óbreyttu í vinstri bakverðinum gegn Hollandi á morgun. Okkar menn unnu 2-0 sigur í fyrri leiknum á Laugardalsvelli.

„Þetta verður allt annar leikur núna. Þeir spila allt öðruvísi fótbolta heima. Það gekk allt upp hjá okkur.  Það var kalt, þeir voru að spila í löngum buxum með hanska. sem virkaði vel fyrir okkur. Á morgun verður þetta allt annar leikur. Þeir munu koma eins og brjálæðingar út.“

Ari Freyr fór sextán ára utan til Heerenveen og var í um tvö ár. Hann segist skilja hollenskuna þokkalega og geta lesið það sem stendur í blöðunum. Hann tali samt bara nokkur orð. Honum líður vel í Amsterdam með félögum sínum.

„Það er alltaf jafngaman að koma og hitta strákana, að vera saman í þennan tíma. Ég hef aldrei komið og upplifað leiðinlega stemningu.“

Ari Freyr mundar sinn frábæra vinstri fót.Vísir/Ernir
Ari Freyr, sem spilar með OB Odensen, segir formið á sér gott. Hann hefur spilað alla leikina í dönsku deildinni og líkaminn sé þokkalegur. Hann fékk krampa undir lok leiksins gegn Tékkum sem var nokkuð kómískur. Lars sýndi blaðamönnum augnablikið á fundi á dögunum og notaði sem dæmi um hve mikið okkar menn leggja á sig.

„Við erum að hlaupa eins og brjálæðingar og berjast. Það er það sem þarf til að vinna þessa leiki. Það var ekki skemmtilegur krampi og svo fékk ég aftur krampa í síðasta leik. Ég veit ekki hvað er í gangi en það er gott að einhverjir geti hlegið að þessu.“

Aðspurður hvað strákarnir geri sér til dundurs á milli æfinga og leikja. segir Ari suma spila, aðra horfa á kvikmyndir uppi á herbergi, sumir dundi sér í púttkeppni og svo sé líklega planið að fara í bíó í kvöld. Bara eitthvað til að hugsa ekki bara um fótbolta. En hver er bestur í púttinu? Á einhver séns í Gylfa Þór Sigurðsson sem er með 4,5 í forgjöf?

„Gylfi er ekkert bestur. Ég er reyndar ekki með í þessu en ég held að hann sé ekki bestur,“ segir Ari og brosir í kampinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×