„Við getum staðfest að meginbygging Belhofsins og röð súlna í nágrenni þess hafa nú verið eyðilögð,“ segir í yfirlýsingu frá Unitar, stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Hryðjuverkasamtökin ISIS náðu Palmyra á sitt vald í maí síðastliðinn og hafa síðan skemmt nokkur forn hof. Belhofið var talið vera um tvö þúsund ára gamalt en í síðustu viku var greint frá því að Baalshaminhofið í Palmyra hafði verið sprengt.
Í apríl birtu samtökin myndbönd af því þegar þeir sprengdu fornu borgina Nimrud í sundur. Þar að auki hafa ISIS-liðar keyrt yfir staði með mikilvægar fornminjar í Sýrlandi og Írak með jarðýtum.
Palmyra er að finna um 200 kílómetrum norðaustur af sýrlensku höfuðborginni Damaskus. Palmyra er eldri en Nimrud og var stofnuð um tvö þúsund árum fyrir Krist og er á heimsminjaskrá UNESCO.
