Fótbolti

Benítez er bjartsýnn þrátt fyrir markalaust jafntefli í fyrsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benítez stýrði Real Madrid í fyrsta sinn í deildarleik í gær.
Benítez stýrði Real Madrid í fyrsta sinn í deildarleik í gær. vísir/getty
Þrátt fyrir að hafa byrjað tímabilið á markalausu jafntefli við nýliða Sporting Gijón er Rafa Benítez, knattspyrnustjóri Real Madrid, bjartsýnn á framhaldið.

„Ég vissi að þetta yrði erfiður leikur fyrir okkur,“ sagði Benítez sem tók við Real Madrid af Carlo Ancelotti í sumar.

Allar helstu stjörnur Real Madrid, að Karim Benzema frátöldum, voru með í gær en það dugði ekki til gegn vel skipulögðu liði Sporting.

„Við áttum fullt af skotum en það vantaði nákvæmnina. Við gáfum líka færi á okkur í fyrri hálfleik. Það er mikið verk enn óunnið.

„Ég var þó ánægður með hvernig liðið brást við í seinni hálfleik. Við sýndum karakter og það fyllir mig bjartsýni. Við lögðum allt í sölurnar en það vantaði bara úrslitasendinguna og að klára færin.“

Real Madrid hefur mistekist að skora í fimm af níu leikjum sínum undir stjórn Benítez og ljóst er að þessi fyrrverandi stjóri Valencia og Liverpool þarf að finna lausnir á markaleysi Madrídinga og það fljótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×