Lífið

One Direction halda hver í sína átt

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Seinustu mánuði hafa strákarnir haldið ótrauðir áfram þrátt fyrir að fækkað hefur í hópnum.
Seinustu mánuði hafa strákarnir haldið ótrauðir áfram þrátt fyrir að fækkað hefur í hópnum. Mynd/Getty
Eins og alþjóð veit hafa meðlimir hljómsveitarinnar One Direction staðfest fregnir þess efnis að þeir ætli að taka sér árs pásu. Á seinustu fimm árum hafa þeir tekið þátt í X-Factor, gefið út fjórar plötur, farið í sex tónleikaferðalög og gefið út þrjár tónleikamyndir. Það er því auðvelt að skilja það að strákarnir séu orðnir þreyttir, jafnvel hver á öðrum. Seinustu tónleikar þeirra í bili verða í Sheffield í október en talið er að einhverjir þeirra hefji sólóferil í kjölfarið.

Þeir hófu allir ferilinn hver í sínu lagi þegar þeir mættu í áheyrnarprufur fyrir bresku útgáfu X-Factor. Þeir voru settir saman í eina hljómsveit seinna í þáttunum þar sem þeir voru ekki taldir líklegir til sigurs einir og sér.

Hljómsveitin er samsett af þeim Harry Styles, Niall Horan, Liam Payne og Louis Tomlinson. Zayn Malik var áður með þeim en hann sagði skilið við sveitina fyrr á árinu vegna löngunar til þess að lifa eðlilegu lífi sem 22 ára strákur. Strákarnir hafa verið duglegir að lenda á síðum slúðurblaðana vegna persónulegra sambanda þeirra.

Harry Styles hefur verið langmest áberandi af hljóm­sveitar­meðlimunum en hann hefur átt í ástarsambandi við ólíklegustu stúlkur. Til þess að byrja með byrjaði hann með einum af kynnum X-Factors þegar hann tók þátt í keppninni en þá var hann aðeins 17 ára en hún 31 árs. Hann byrjaði seinna með söngkonunni Taylor Swift en hún samdi lag um hann eftir að þau hættu saman sem hét „I Knew You Were Trouble“. Hann var einnig á föstu með raunveruleikastjörnunni Kendall Jenner og fyrirsætunni Cöru Delevigne. Upp á síðkastið hefur hann sést á ýmsum stefnumótum með fyrirsætum.

Louis Tomlinson á von á barni með stelpu sem hann átti í stuttu sambandi við í Los Angeles eftir eitt djammið. Hann segist þó vera spenntur fyrir komu frumburðarins og verður hann eflaust frábær faðir. Liam og Niall hafa látið minna fyrir sér fara þegar kemur að persónulega lífinu. Zayn Malik var trúlofaður Perrie Edwards í tvö ár og var hún talin vera ástæðan fyrir að hann hætti í hljómsveitinni. Þau slitu hins vegar trúlofuninni í mánuðinum mörgum til mikillar furðu.

Það hefur lengi verið talið að Harry yrði sá fyrsti til að hefja sólóferil en hann er talinn vera með bestu röddina og er í raun mesta stjarnan í hópnum en það verður spennandi að fylgjast með hvernig þeim mun ganga þegar þeir verða einir á báti. Það sem margir óttast er að þeim muni ganga það vel að þeir muni ekki koma saman aftur eins og þeir hafa lofað aðdáendum sínum.

One Direction hreppti þriðja sætið í X-Factor árið 2011. Þeir urðu strax vinsælir í kjölfarið.
Tímalína One Direction:

Júlí 2010: Fóru í áheyrnarprufur hver í sínu lagi fyrir breska raunveru­leikaþáttinn X-Factor. Þeir þóttu þó ekki nógu sterkir söngvarar og eftir að þeir komust ekki áfram í 12 liða úrslit sem einstaklingar ákvað Nicole Scherzinger, sem var gestadómari í þáttunum á þessum tíma, að setja þá saman í eina strákahljómsveit. Þeir enduðu svo í þriðja sæti í keppninni.



Janúar 2011: Í byrjun ársins hófu þeir upptöku á fyrstu breiðskífu sinni. Þeir tóku hana upp í Svíþjóð, London og Los Angeles með mörgum af þekkt­ustu upptökustjórum heims.



September 2011: Fyrsta smáskífa plötunnar var gefin út. Hún bar nafnið What Makes You Beautiful og skaust í fyrsta sætið á breska vinsældalistanum.



Febrúar 2012: What Makes You Beautiful var gefin út í Bandaríkjunum en þá höfðu strákarnir nýlega skrifað undir samning við Columbia Records. Smáskífan seldist í fjórum milljónum eintaka þar í landi og komst á 28. sæti vinsældalistans.



Mars 2012: One Direction gaf út sína fyrstu breiðskífu, Up All Night. Hún fór beint í fyrsta sæti í Bretlandi og varð hljómsveitin því sú fyrsta breska til þess að ná þeim árangri að lenda á toppnum með sína fyrstu plötu.



Ágúst 2012: Sveitin kom fram á loka­hátíð Ólympíuleikanna í London með pompi og prakt og þeir stimpluðu sig inn á kortið sem alþjóðlegar stjörnur.



Desember 2012: Strákarnir spiluðu fyrir Englandsdrottningu auk þess að spila á troðfullum tónleikum í Madison Square Garden í New York.



Febrúar 2013: Önnur tónleikaferð strákanna hófst fyrir nýútgefna plötu þeirra, Take Me Home, en það seldist upp á flesta tónleika þeirra í Bretlandi og á Írlandi á nokkrum mínútum. Gagnrýnendur sögðu tónleika sveitarinnar vera frábæra og hrósuðu sérstaklega persónutöfrum þeirra og vönduðum söng.



Ágúst 2013: Heimildarmynd var gefin út um tónleikaferð strákanna og náði miklum vinsældum í Bretlandi og Bandaríkjunum og er í dag fjórða vinsælasta tónleikamynd í heimi.



Nóvember 2014: Fjórða breiðskífa One Direction var gefin út en hún bar nafnið Four og fór beint í fyrsta sæti breska vinsældalistans. Þeir hófu í kjölfarið tónleikaferðalag um heiminn.



Mars 2015: Mörg hjörtu voru kramin þann 25. mars þegar hljómsveitin sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að Zayn Malik hefði yfirgefið sveitina. Hann sjálfur gaf upp þá ástæðu að hann væri orðinn þreyttur á frægðinni en hann hefur þó verið að vinna í sínu eigin efni eftir viðskilnaðinn við vinsæl­ustu hljómsveit heims.



Júlí 2015: One Direction gaf út sína fyrstu smáskífu eftir brottför Zayn og heitir hún Drag Me Down.



Ágúst 2015: The Sun birtir grein um að hljómsveitin ætli sér að hætta og allt fer í háaloft. Liam og Niall segja þó að það sé ekkert að óttast og að þeir ætli aðeins að taka árs frí til þess að gera það sem þá langar til. Það er skiljanlegt þar sem þeir hafa unnið mjög náið saman stanslaust undanfarin fimm ár.



Hér fyrir neðan má sjá fallegt lag sem minnir á tíma þegar allt lék í lyndi.



Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×