Enski boltinn

David De Gea spilar ekki fyrir Man Utd fyrr en glugginn lokar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea verður áfram upp í stúku.
David De Gea verður áfram upp í stúku. Vísir/AFP
Spænski markvörðurinn David De Gea verður ekki í leikmannahópi Manchester United í kvöld þegar liðið mætir Aston Villa í öðrum leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Enski miðlar segja frá því að David De Gea hafi sagt starfsliði Manchester United að hann sé ekki spenntur fyrir því að spila með Manchester-liðinu eins og staðan er núna.

BBC hefur líka heimildir fyrir því að knattspyrnustjórinn Louis van Gaal ætli ekki að velja hann í liðið fyrr en að félagsskiptaglugginn lokar en De Gea hefur orðaður við Real Madrid í allt sumar.

David De Gea hefur staðið sig frábærlega með liði Manchester United undanfarin tímabil og fékk meðal annars tvisvar verðlaunin sem besti leikmaður félagsins.

Manchester United stendur fast á sínu að félagið vilja ekki selja De Gea nema að fá risaupphæð frá Real Madrid eða að fá miðvörðinn Sergio Ramos í skiptum.

Samningur De Gea rennur út eftir tímabilið og það er því ekkert skrýtið að Real Madrid sé ekki tilbúið að láta of mikið fyrir hann þótt að bæði leikmaður og félagið vilji að hann komist heim til Madrid.

De Gea sagði markvarðarþjálfaranum Frans Hoek að hann væri ekki hundrað prósent einbeittur og Van Gaal hikaði ekki við að henda besta markverði liðsins út úr hópnum.

„Ég er ekki að taka allar ákvarðanir einn. Ég er með tvo aðstoðarþjálfara og markmannsþjálfara. Frans fundaði með David De Gea. Hann er fullkomlega sammála okkar ákvörðun," sagði Louis van Gaal.

Argentínski landsliðsmarkvörðurinn Sergio Romero var í markinu á móti Tottenham en hann stóð sig vel í leiknum og hélt hreinu.

Manchester United hefur því efni á því eins og er að halda einum besta markverði ensku úrvalsdeildarinnar fyrir utan hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×