Fótbolti

Óvissa um framtíð Pedro

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Pedro í æfingarleik gegn LA Galaxy á dögunum.
Pedro í æfingarleik gegn LA Galaxy á dögunum. Vísir/Getty
Luis Enrique, knattspyrnustjóri Barcelona, viðurkenndi á blaðamannafundi að hann geti ekkert gert í því ef spænski framherjinn Pedro vill fara frá félaginu. Pedro hefur undanfarna daga verið orðaður við Manchester United og Chelsea.

Pedro sem gekk til liðs við akedemíu Barcelona aðeins sautján ára hefur leikið 318 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 98 mörk. Hjá Barcelona hefur Pedro fimm sinnum orðið spænskur meistari, þrisvar verið í sigurliði í Meistaradeild Evrópu ásamt því að verða bikarmeistari fjórum sinnum.

Hann þurfti hinsvegar að sætta sig við mikla bekkjarsetu á síðasta tímabili en Luis Enrique treysti á Luis Suárez, Neymar og Lionel Messi í framlínunni er Barcelona vann þrennuna. Hefur það gert það að verkum að Pedro íhugar þessa dagana að yfirgefa spænska stórveldið í von um stærra hlutverk hjá öðru liði.

„Ég hef rætt við Pedro, ef eitthvað félag vill fá hann til liðs við sig verða þeir að greiða riftunarverð hans og þá get ég ekkert gert,“ sagði Enrique en Pedro skrifaði undir nýjan samning í sumar þar sem riftunarverðið hans lækkaði niður í 22 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×