Fótbolti

Ronaldo og félagar unnu öruggan sigur á Manchester City | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Real Madrid vann öruggan 4-1 sigur á Manchester City í International Champions Cup en leiknum lauk rétt í þessu í Melbourne í Ástralíu. Yfirburðir spænska liðsins í leiknum voru gífurlegir en eina mark Manchester City kom eftir að dómari leiksins færði þeim vítaspyrnu á silfurfati.

Knattspyrnustjórar liðanna stilltu upp sterkum byrjunarliðum en Manuel Pellegrini gaf ungum miðvörðum félagsins tækifæri í leiknum sem stórstjörnur Real Madrid nýttu sér í fyrri hálfleik.

Fyrsta mark leiksins var í snyrtilegari kantinum en þá afgreiddi Karim Benzema, franski framherji Real Madrid glæsilega fyrirgjöf Gareth Bale í netið. Fjórum mínútum síðar bætti Cristiano Ronaldo við öðru marki en hann fékk langa sendingu frá Toni Kroos inn fyrir vörn Manchester City og setti hann boltann auðveldlega framhjá Joe Hart í marki Manchester City.

Pepe virtist endilega hafa gert út um leikinn stuttu fyrir hálfleik er hann skallaði hornspyrnu Isco í netið en Yaya Toure minnkaði muninn af vítapunktinum eftir að boltinn fór í hönd Sergio Ramos. Brotið átti sér stað fyrir utan vítateiginn en engu að síður dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu og sendi Toure markmann Real Madrid í vitlaust horn.

Staðan var 3-1 í hálfleik en báðir þjálfarar gerðu töluvert af breytingum í seinni hálfleik. Bætti rússneski kantmaðurinn Denys Cheryshev við fjórða marki Real Madrid undir lok leiksins og tryggði endanlega sigur spænska stórveldisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×