Körfubolti

Helena fékk óskamótherjann sinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helena í landsleik.
Helena í landsleik. vísir/daníel
Búið er að draga í riðla í undankeppni EM kvenna í körfubolta, en íslensku stelpurnar verða með Slóvakíu, Ungverjalandi og Portúgal. Ísland byrjar á því að spila ytra.

Ísland hefði auðveldlega getað lent í mun sterkari riðli, en slóvakíska liðið, sem var í efsta styrkleikaflokki, endaði í níunda sæti á EM 2015 sem er nú nýlokið.

Ungverjarnir voru einnig með á því móti og enduðu í sautjánda sæti, en fyrsti leikur Íslands fer fram í Ungverjalandi þann 21. nóvember. Fyrsti heimaleikurinn verður gegn Slóvakíu fjórum dögum síðar, en Ísland hefur ekki mætt neinni af þessum þjóðum í landsleik áður.

Fyrirliði Íslands, Helena Sverrisdóttir, hefur spilað sem atvinnumaður í tveimur af þessum þremur löndum, nánar tiltekið í Slóvakíu og Ungverjalandi, svo hún ætti að kannast við landslagið þar. Hún sagði í viðtali við Karfan.is að hún vildi fá Slóvakíu og varð hún að ósk sinni.

Leikir Íslands í riðlinum:

21. nóvember 2015 Ungverjaland - Ísland

25. nóvember 2015 Ísland - Slóvakía

20. febrúar 2016 Portúgal - Ísland

24. febrúar 2016 Ísland - Ungverjaland

19. nóvember 2016 Slóvakía - Ísland

23. nóvember 2016 Ísland - Portúgal




Fleiri fréttir

Sjá meira


×