Fótbolti

PAOK gengur hart á eftir Alfreð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð í leik með Real Sociedad á síðasta tímabili.
Alfreð í leik með Real Sociedad á síðasta tímabili. Vísir/Getty
Gríska félagið PAOK er ekki búið að gefast upp á því að fá Alfreð Finnbogason að láni frá spænska félaginu Real Sociedad.

Spænska dagblaðið AS segir frá því að Frank Arnesen, nýr framkvæmdastjóri PAOK, hafi fundað með Jokin Aperribay, forseta Real Sociedad, um mögulegan lánssamning.

Fjölmiðlar ytra hafa fjallað um áhuga PAOK á Alfreð í nokkurn tíma og var um tíma fullyrt að framherjinn væri á leið til Grikklands enda hafi Real Sociedad gengið að tilboði gríska félagsins. Fótbolti.net fullyrti að svo væri ekki.

Lítið hefur heyrst af málinu að undanförnu en Arnesen, sem var áður yfirmaður íþróttamála hjá Tottenham, Chelsea og Hamburg, leggur samkvæmt frétt AS mikla áherslu á að fá Alfreð.

Enn fremur segir í fréttinni að nokkur evrópsk félög hafi áhuga á Alfreð, sem sé ekki í myndinni hjá David Moyes, stjóra Real Sociedad, að svo stöddu. PAOK er sagt tilbúið að taka yfir samning Alfreðs en sé ekki reiðubúið að greiða aukalega fyrir lánssamninginn, eins og forráðamenn spænska félagsins vilja.

Viðræður eru þó enn sagðar standa yfir enda sé Arnesen harðákveðinn í því að Alfreð sé rétti maðurinn til að leiða sóknarlínu PAOK á næsta tímabili.

Alfreð hefur verið í fríi á Íslandi síðustu daga og heldur að öllu óbreyttu utan um helgina og mun þá hefja æfingar með Real Sociedad.


Tengdar fréttir

Alfreð á leið til Grikklands

Alfreð Finnbogason, framherji Real Sociedad og íslenska landsliðsins, er sagur vera á leið til PAOK á eins árs lánssamningi, en þetta kemur fram í grískum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×