Fótbolti

Forseti Barcelona: Zlatan langaði að kýla Guardiola

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola og Zlatan áttu ekki samleið.
Pep Guardiola og Zlatan áttu ekki samleið. vísir/getty
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, ræddi við fréttamenn í gær fyrir væntanlegt forsetaframboð sitt og sagði þar sögu af Zlatan Ibrahimovic og Pep Guardiola.

Sænski framherjinn var keyptur dýrum dómum til Katalóníurisans sumarið 2009, en hann entist aðeins í eitt ár hjá Börsungum og fór til AC Milan sumarið 2010.

Zlatan og Pep Guardiola, þáverandi þjálfari Barcelona, náðu engan veginn saman og rifust oft eins og hundur og köttur.

Umboðsmaður Zlatans er Ítalinn Mino Raiola sem er einnig umboðsmaður Pauls Pogba, en Barcelona vill fá Frakkann unga til liðs við sig í sumar.

„Ég þekki Mino Raiola vel eftir að hafa verið í viðræðum við hann áður. Ég samdi við hann um Zlatan Ibrahimovic árið 2010 til dæmis,“ sagði Bartomeu aðspurður um líkurnar á að Pogba yrði leikmaður Barcelona.

„Ég hitti Mino oft. Einu sinni sagði hann: Ibra mun kýla Pep einn daginn. Mino er vinalegur náungi en það verður að horfa á hversu vel hann þénar. Hann er sérfræðingur í að koma mönnum á milli liða.“

„Stjórninni var falið að kaupa ákveðinn miðjumann [Pogba]. Nú þurfum við bara að sannfæra hann um að koma. Ég get samt ekki kynnt hann til sögunnar alveg strax,“ sagði Josep Maria Bartomeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×