Fótbolti

Zidane: Ég vildi starfið sem Benítez fékk

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zinedine Zidane tekur á móti Rafael Benítez.
Zinedine Zidane tekur á móti Rafael Benítez. vísir/getty
Franska knattspyrnugoðsögnin Zinedine Zidane viðurkennir í nýju viðtali við France Football að hann vildi fá þjálfarastarfið hjá Real Madrid þegar Carlo Ancelotti var rekinn.

Zidane var aðstoðarmaður Ancelotti tímabilið 2013/14 þegar liðið vann bikarinn og Meistaradeildina í tíunda sinn í sögu félagsins, en hann tók svo við B-liði Real Madrid fyrir síðustu leiktíð.

Margir töldu að hann myndi taka við af Ítalanum Ancelotti þegar hann var rekinn eftir síðasta tímabil, en Florentino Pérez, forseti félagsins, réð þess í stað Rafael Benítez.

„Ég hefði tekið við starfinu af Ancelotti hefði það boðist. Ég er atvinnumaður og skorast aldrei undan áskorun,“ segir Zidane við France Football.

„En nei, ég er ekkert svekktur með að horft var framhjá mér þegar Benítez var ráðinn. Stjórninni fannst ekki réttur tími núna að ég myndi taka við. Þessir hlutir eiga að gerast náttúrlega þannig maður á ekkert að þröngva þeim áfram.“

„Þetta átti bara ekki að gerast núna. Forsetinn valdi annan þjálfara og þannig er það bara,“ segir Zinedine Zidane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×