Körfubolti

Golden State jafnaði metin | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Igoudala hefur verið besti leikmaður Golden State í úrslitaeinvíginu.
Igoudala hefur verið besti leikmaður Golden State í úrslitaeinvíginu. vísir/getty
Golden State Warriors jafnaði metin í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar með 21 stiga sigri, 82-103, á Cleveland Cavaliers í fjórða leik liðanna í nótt.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Golden State en það hefur aldrei gerst í sögu NBA að lið komi til baka eftir að hafa lent 3-1 undir í lokaúrslitum.

Aðeins sex stigum munaði á liðunum fyrir 4. leikhluta en þá náðu gestirnir frá Oakland heljartökum á leiknum. Sóknarleikur Cleveland var lélegur en liðið skoraði aðeins tvær körfur í öllum lokaleikhlutanum.

LeBron James var mun rólegri en í fyrri leikjum einvígisins og skoraði 20 stig - 21 stigi undir meðaltali hans í seríunni. Hann tók einnig 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

James hitti illa í nótt eins og liðsfélagar sínir.vísir/getty
Rússneski miðherjinn Timofey Mozgov var stigahæstur í liði Cleveland með 28 stig en liðið fékk sama og ekkert framlag frá varamönnum sínum í leiknum. J.R. Smith misnotaði t.a.m. öll átta skot sín fyrir utan þriggja stiga línuna.

Steve Kerr, þjálfari Golden State, setti Andre Igoudala í byrjunarliðið í fyrsta sinn í vetur og hann átti frábæran leik; skoraði 22 stig, tók átta fráköst og spilaði góða vörn á James.

Stephen Curry skoraði einnig 22 stig fyrir Golden State og þá gerði Draymond Green 17 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Næsti leikur fer fram á heimavelli Golden State aðfaranótt mánudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×