Fótbolti

Buffon: Messi er geimvera sem spilar með okkur mannfólkinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi er engum líkur.
Lionel Messi er engum líkur. vísir/getty
Gianluigi Buffon, markvörður Ítalíumeistara Juventus, segir Lionel Messi, leikmann Barcelona, ekki vera frá plánetunni jörð.

Messi hefur verið í svakalegu formi með Barcelona á þessari leiktíð, en liðið getur unnið þrennuna á laugardaginn hafi það betur gegn Juventus í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Messi er geimvera sem spilar með okkur mannfólkinu,“ segir Buffon, en Messi getur á laugardaginn orðið fyrsti maðurinn til að skora í þremur úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar.

„Við vonum bara að sjötta júní snúi hann aftur til jarðar og verði mannlegur eins og við hinir,“ segir Buffon.

MSN-sóknarþríeyki Börsunga; Messi, Neymar og Luis Suárez, hefur skorað 120 mörk samtals fyrir Katalóníurisann á þessari leiktíð.

„Þetta er besta sóknarþríeyki heims. Þetta lið er með ótrúleg vopn í sóknarleiknum sem er svo sannarlega ógnvekjandi. Við erum líka með vopn. Ekki kannski nógu góð til að stoppa þá en nógu góð til að hægja á þeim,“ segir Gianluigi Buffon.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram á laugardaginn klukkan 18.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×