Körfubolti

Bara sex hafa skorað meira í sínum fyrsta landsleik síðustu 29 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox er KR-ingur sem spilar með Furman-háskólanum.
Kristófer Acox er KR-ingur sem spilar með Furman-háskólanum. vísir/valli
Kristófer Acox var í byrjunarliðinu í fyrsta landsleiknum sínum í gær þegar Ísland vann 22 stiga sigur á Andorra, 83-61.

Kristófer Acox skoraði 11 stig á rúmum 17 mínútum í leiknum og varð fyrsti leikmaðurinn í tíu ár til að skora yfir tíu stig í fyrsta landsleik sínum.

Hann var einnig með 6 fráköst, 1 stolinn bolta og 1 varið skot. Kristófer nýtti fimm af átta skotum sínum utan af velli og setti niður eina vítaskotið sitt í leiknum.

Kristófer Acox byrjaði fyrsta landsleikinn sinn en það hafa bara fimm aðrir nýliðar gert á þessari öld eða þeir Jón Arnór Stefánsson (2000), Brenton Birmingham (2002), Pavel Ermolinskij (2004), Darrel Lewis (2005) og Ragnar Nathanaelsson (2013).

Það hafa ennfremur bara sex hafa skorað meira en Kristófer í fyrsta landsleik sínum frá árinu 1986 og enginn nýliði hefur skorað 11 stig eða meira í fyrsta landsleik sínum undanfarinn áratug.

Leikmennirnir sem hafa skorað meira en 11 stig í sínum fyrsta landsleik frá 1986 eru Jóhannes Kristbjörnsson, Brenton Birmingham, Jón Arnar Ingvarsson, Kristinn Einarsson, Guðjón Skúlason og Arnar Freyr Jónsson. Jóhannes, Arnar Freyr, Kristinn og Brenton voru allir stigahæstir í sínum fyrsta landsleik.

Kristófer Acox skoraði fimm körfur í leiknum þar af voru tvær troðslur en þær komu báðar eftir stoðsendingar frá Ægi Þór Steinarssyni. Ægir átti alls fjórar stoðsendingar á Kristófer í leiknum.

Kristófer Acox var að klára sitt annað tímabil með Furman-háskólaliðinu þar sem hann var með 7,0 stig og 7,5 fráköst að meðaltali í 1. deild bandaríska háskólaboltans. Kristófer lék með KR áður en hann fór út til Bandaríkjanna.

Flest stig í fyrsta landsleiknum sínum frá árinu 1986:

28 stig - Jóhannes Kristbjörnsson, 1986

27 stig - Brenton Birmingham 2002

18 stig - Jón Arnar Ingvarsson, 1990

17 stig - Kristinn Einarsson, 1986

15 stig - Guðjón Skúlason, 1988

13 stig - Arnar Freyr Jónsson, 2004

11 stig - Kristófer Acox, 2015

11 stig - Darrel Lewis, 2005

11 stig - Hermann Hauksson, 1994

11 stig - Magnús Helgi Matthíasson, 1987

10 stig - Damon Johnson, 2003

10 stig - Hreggviður Magnússon, 2000

10 stig - Alexander Ermolinskij, 1997

10 stig - Magnús Guðfinnsson, 1988




Fleiri fréttir

Sjá meira


×