Fótbolti

Ancelotti rekinn frá Real Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ancelotti stýrir ekki Real á næstu leiktíð.
Ancelotti stýrir ekki Real á næstu leiktíð. vísir/getty
Carlo Ancelotti hefur verið rekinn sem stjóri Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en Marca greinir frá þessu nú síðdegis.

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, tilkynnti þetta nú síðdegis eftir að hann og Ancelotti höfðu sest niður og rætt málin. Leit er nú hafin að eftirmanni Ancelotti, en líkur eru á að Rafa Benitez taki við starfinu.

Óvíssa hefur ríkt um framtíð Ítalans eftir að Real Madrid mistókst að tryggja sér neinn bikar á þessu tímabili, en liðið lenti í öðru sæti í deildinni á eftir Barcelona.

Einnig datt liðið út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn Juventus og féll úr 16-liða úrslitum spænska bikarsins gegn Atletico Madrid. Vonbrigðatímabil.

Ancelotti hefur þjálfað PSG, Chelsea, Milan, Juventus, Parma og Reggiana á sínum ferli, en Ancelotti var einnig sagt upp sem þjálfari Chelsea og Juventus. Hann hyggst taka sér frí frá þjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×