Talið er að fyrsta byggð hafi fyrst byrjað í Palmyra á milli tvö og þúsund árum fyrir krist. Þar er stór vin og samkvæmt al-Jazeera er talið að um hundrað þúsund manns sem flúið hafa átökin í Sýrlandi haldi til í og við rústirnar.

Þar má með sanni segja að heimar hafi mæst og eru margar byggingar þar sem eru blanda af grísk-rómverskum byggingarstíl og persneskum.
Óbætanlegur fjársjóður
AP fréttaveitan hefur eftir Bokova að hún hafi biðlað til ISIS og hersins að berjast ekki í rústunum. „Rústirnar hafa þegar skemmst í fjögurra ára átökum,“ sagði hún og bætti við að rústirnar væru í raun óbætanlegur fjársjóður sýrlensku þjóðarinnar og heimsins.

Þá gjöreyðilögðu samtökin tvær þúsunda ára gamlar rústir í Írak fyrr á árinu. Bokova sagði að aðgerðir sem þessar ætti að fordæma sem stríðsglæpi. Stjórnvöld í Sýrlandi hafa beðið alþjóðasamfélagið um að koma rústunum til bjargar. Al-Jazeera segir að samkvæmt gervihnattamyndum hafi fornar minjar verið skemmdar á 290 minjasvæðum í Sýrlandi.
ISIS eru nú sagðir flytja liðsauka frá nærliggjandi héruðum, en herinn mun vera að gera það einnig. Þar að auki segist herinn gera loftárásir gegn ISIS á svæðinu.
