Körfubolti

Haukur klárar ekki tímabilið með Laboral Kutxa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Daníel
Haukur Helgi Pálsson er á heimleið en hann fékk ekki samning hjá spænska Euroleague-liðinu Laboral Kutxa eftir að hafa verið á reynslu að undanförnu. Haukur segir frá þessi á samfélagsmiðlum.  

Haukur spilaði bara einn leik með Laboral Kutxa liðinu í spænsku úrvalsdeildinni en það var í 73-45 stórsigri á CAI Zaragoza en Haukur kom þá inná í rúmar mínútur og tókst ekki að komast á blað.

„Jæja á heimleið í vikunni! Búið að vera skemmtilegur tími en því miður fór það ekki eins og maður vildi. Learning process," skrifaði Haukur inn á Instagram-síðu sína í dag.

Haukur fór út til reynslu til Laboral Kutxa en hann spilaði annars í vetur með sænska liðinu LF Basket þar sem hann var með 12,3 stig, 4,8 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

LF Basket datt út í átta liða úrslitunum sænsku úrvalsdeildarinnar og reyndi Haukur því að komast á öðru liði. Hann fékk tækifærið á Spáni en tókst ekki að tryggja sér áframhaldandi samning hjá þessu sterka liði.

Framundan er sögulegt landsliðssumar þar sem Haukur Helgi verður í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu sem er á leiðinni á EM í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×