Miðar á bardaga Floyd Mayweather og Manny Pacquaio fóru loksins í sölu í dag. Ekki seinna vænna því þeir berjast eftir rúma viku.
Það voru reyndar afar fáir miðar í boði fyrir almenning þar sem aðeins 1.000 miðar fóru í almenna sölu. Bardaginn fer fram á MGM Grand-hótelinu og þar er pláss fyrir 16.500 áhorfendur.
15.500 miðar fóru til hótelsins, styrktaraðila og bardagakappanna.
Þeir sem eru ekki vel tengdir og vildu kaupa á eigin vegum fengu ódýrasta miðann á litlar 205 þúsund krónur. Dýrustu miðarnir fóru síðan á rúma milljón. Það var því ekki á hvers manns færi að kaupa þessa miða.
Miðarnir seldust á örskotsstundu og þegar er byrjað að selja miða á svarta markaðnum á uppsprengdu verði.
Bardaginn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
