Lífið

Fullviss um að María Ólafs vinni Eurovision

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ágústa Eva Erlendsdóttir og Gaukur Úlfarsson, skaparar Silvíu Nætur og fyrrum Eurovision-farar, segjast fullviss um að María Ólafsdóttir, fulltrúi Íslendinga í Eurovision, muni vinna keppnina í ár. Það sé í fyrsta sinn sem þau spái Íslandi sigri, enda lagið þrusugott.

„Við höfum hraunað yfir þessa keppni út í hið óendanlega, en nú er sko partý,“ sagði Ágústa Eva í þættinum Eurovísi og bætti við að keppnin hefði breyst til hins betra á undanförnum árum.

„Þetta er skemmtilegra núna þegar það eru komin svona alvöru lög og góð lög. Þá er meira gaman að þessu. Mér finnst keppnin vera að breytast. Euphoria setti til dæmis nýjan standard í þessa keppni,“ sagði hún.

„Ég er ekki að grínast. Þetta er þrusu söngkona, hún er rosa aðlaðandi og þetta er frábært lag,“ sagði Gaukur og gaf henni sín helstu heillaráð: „Ekki segja fokk og ekki fara að grenja ef hún tapar.“

Ágústa sagðist sjálf aldrei hafa sett stefnuna á Eurovision, en aðspurð hvort hún hefði áhuga á að fara aftur sagði hún það hugsanlegt. „Það fer allt eftir aðstæðum og eðli málsins.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ágústu Evu og Gauk í heild í spilaranum hér fyrir ofan.

Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×