Fótbolti

Alfreð fékk sextán mínútur á móti meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason og félagar í Real Sociedad töpuðu 2-0 á útivelli á móti spænsku meisturunum í Atlético Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Atlético Madrid skoraði bæði mörkin sín á fyrstu tíu mínútum en þau skoruðu núverandi (sjálfsmark) og fyrrverandi leikmaður Real Sociedad.

Alfreð Finnbogason kom inná sem varamaður á 74. mínútu leiksins en David Moyes, þjálfari Real Sociedad, sendi þó bæði Alfreð og framherjann Imanol Agirretxe báða inná völlinn í einu.

Þessi skipting skilaði þó ekki marki og Real Sociedad varð að sætta sig við tveggja marka tap.

Mikel González skoraði sjálfsmark á 3. mínútu og Antoine Griezmann bætti við öðru marki á 10. mínútu. Þetta voru einu mörk leiksins.

Real Sociedad var búið að ná í stig í fjórum síðustu leikjum sínum, hafði unnið þrjá og gert eitt jafntefli. Þetta var aftur á móti þriðji sigur Atlético Madrid í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×