Um 120 eru látnir og rúmlega 300 særðir eftir að þrír sjálfsvígssprengjumenn sprengdu sjálfa sig í loft upp í miðri föstudagsbæn í tveimur moskum í jemensku höfuðborginni Sanaa í morgun.
Fyrst sprakk sprengja inni í Badr-moskunni og þegar gestir flykktust út sprakk önnur sprengja við innganginn. Imam moskunnar ku vera einn hinna látnu. Þriðja sprengjan sprakk svo í al-Hashahush moskunni í miðborg Sanaa.
Hryðjuverkasamtökin ISIS lýstu því yfir í tilkynningu að samtökin bæru ábyrgð á árásinni. Að sögn Reuters eru það fyrst og fremst sjítar sem létust, en svokallaðir hútar, sem ráða nú yfir stærstum hluta Jemens, sækja moskurnar tvær alla jafna.
Ástandið í Jemen hefur versnað til muna allt frá því að uppreisnarmenn húta náðu höfuðborginni Sanaa á sitt vald í september síðastliðinn. Í kjölfarið leystu þeir upp þing og ríkisstjórn landsins.
Fyrrum forsetinn Abd Rabbu Mansur Hadi hefur verið haldið í stofufangelsi en í síðasta mánuði flúði hann til borgarinnar Aden þar sem hann nýtur mikils stuðnings.
Uppreisnarmenn húta hafa átt í átökum bæði við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda og sveitir súnnímúslíma síðustu mánuði.
ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásunum í Jemen

Tengdar fréttir

Tugir látnir í sjálfsvígssprengjuárásum í Jemen
Að minnsta kosti fimmtíu og fimm eru látnir eftir að þrír sjálfsvígssprengjumenn sprengdu sjálfa sig í loft upp í tveimur moskum í Sanaa.