Fótbolti

Suárez: Mikilvægasta markið mitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez var hetja Barcelona í gærkvöldi í sínum öðrum El Clásico-leik þegar hann skoraði sigurmarkið, 2-1, á gullfallegan hátt eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan.

Suárez, sem var gagnrýndur fyrir að skora lítið fyrstu mánuðina í búningi Barcelona, er nú búinn að skora 14 mörk fyrir Katalóníurisann og gefa 13 stoðsendingar. Í heildina er hann búinn að koma að 27 mörkum í 27 leikjum.

Sjá einnig:Suárez hetja Barcelona í El Clásico | Sjáðu mörkin

Suárez náði heldur betur að troða ofan í Florentino Pérez, forseta Real Madrid, og íþróttablöðin í höfuðborginni.

Pérez sagði Suárez ekki vera góðan leikmann síðasta sumar og Madrídarblöðin gerðu stólpagrín að Úrúgvæjanum fyrir að vera of þungur og auðvitað bíta Giorgio Chiellini á HM síðasta sumar.

„Þetta er mikilvægasta markið sem ég hef skorað fyrir Barca. Þetta var sérstakt mark því ég skoraði það á móti erkifjendunum,“ sagði Luis Suárez eftir leikinn.

„Þetta var mikilvægt mark fyrir mig og liðið því nú erum við með fjögurra stiga forskot og í betri stöðu. Þetta er þó ekki búið. Það eru margir erfiðir leikir eftir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×