Innlent

Dregur úr skjálftavirkni við Bárðarbungu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Enn er gasmengun við eldstöðvarnar.
Enn er gasmengun við eldstöðvarnar. Vísir/Vilhelm
Vísindamenn vinna að úrvinnslu gagna og athugunum á umbrotasvæðinu við Bárðarbungu til að endurmeta gildandi hættumat. Á fundi Vísindaráðs Almannavarna var ákveðið að taka næstu viku í það verkefni og mun ráðið funda næst þriðjudaginn 10 .mars og taka í framhaldinu ákvarðanir um breytingar á hættumati og lokunarsvæðum.



Samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum hefur dregið mjög úr skjálftavirkni í Bárðarbungu en aðeins einn skjálfti yfir tvö stig síðan á laugardag. Sá skjálfti var 2,3 stig og reið yfir á í gær klukkan 04.08. Alls hafa mælst um það bil sextíu skjálftar síðan á laugardag.



120 skjálftar hafa mælst í kvikuganginum síðan á laugardag en stærsti skjálftinn þar mældist 1,6 stig á sunnudag, klukkan 02.10. Meiri jarðskjálftavirkni mælist í kvikuganginum sem líklega er afleiðing þess að þrýstingur minnkar, að því er segir í tilkynningunni.



Við Tungnafellsjökul mældust þrír skjálftar; um þrjátíu skjálftar við Herðubreið og tveir í Grímsfjalli. Allir skjálftarnir voru minni en tvö stig að stærð en óverulegar jarðskorpuhreyfingar mælast á svæðinu.



Gasmengun mælist enn við og yfir hrauninu og er búist við því að mengunin verði áfram við eldstöðvarnar. Fylgst verður vel með gasmælingum og gefnar út gasspár ef þurfa þykir. Litakóði fyrir flug er gulur fyrir Bárðarbungu, samkvæmt tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×