Haraldur setti fyrst fram kenningu sína í bloggi þann 11. október að sigið í Bárðarbungu fylgdi línulegri kúrfu sem nota mætti til að spá fyrir um goslok. Fyrsti útreikningur hans í október gerði ráð fyrir goslokum í mars 2015 en mánuði síðar talaði Haraldur um „goslok í lok febrúar eða byrjun mars“, með þessum fyrirvara: „En það eru margir þættir, sem geta haft áhrif á kvikurennslið þegar dregur úr kraftinum, einkum viðnám í kvikuganginum undir Holuhrauni og fleira. Allir þessir þættir virka í þá átt að goslok yrðu eitthvað fyrr."
Hann ítrekaði svo enn spá sína í bloggi þann 18. janúar síðastliðinn og birti línurit sem sýndi að sig Bárðarbungu hafi verið ótrúlega reglulegt frá upphafi.

Samkvæmt jöfnu Haraldar yrði línan orðin lárétt eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust , sem var 12. september 2014. Þá hættir sigið í Bárðarbungu, eða í byrjun marsmánaðar 2015, skrifaði Haraldur.
„Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu punktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars,“ sagði Haraldur í janúar.
Fjallað var um æviferil Haraldar og Eldfjallasafnið í Stykkishólmi í byrjun febrúar á Stöð 2 í þættinum „Um land allt". Viku síðar fór Haraldur með áhorfendum umhverfis Jökul og sýndi helstu undur í eldgarði Snæfellsness.